Velkomin á síðuna okkar

Nám barnanna á Lundi fer fram í gegnum frjálsa leikinn. Þau fá æfingu í samskiptum, taka ákvarðanir, leysa vandamál og æfa sig á hlutverkum úr reynsluheimi sínum. Starfsfólk er til staðar á leiksvæðum sem þátttakendur og leiðbeinendur. Mesta áherslan er á hreyfingu og málörvun. Önnur áhersluatriði eru vináttan, líkamsþekking, grunnlitirnir, tölur upp að tíu, könnunarleikur og einnig vinna þau að ýmsum verkefnum sem eru í gangi í öllum leikskólanum.

Netfang deildarinnar er kb.lundur@leikskolarnarnir.is


Á Lundi eru yngstu börn leikskólans og eru þau á aldrinum 18 mánaða til um það bil 3ja ára. Nú í vetur eru börnin 16 talsins en Mikill tími okkar fer í umhyggju og umönnun eins og að hugga, faðma, skipta á bleiu, klæða úr og í, venja við salerni og æfa þau í að hjálpa sér sjálf. Þess vegna er starfið ekki eins skipulagt og er á hinum deildunum.


Það sem við leggjum mesta áherslu á er hreyfing og málörvun.

Hreyfing er undirstaða annara þroskaþátta. Fræðingar telja að fylgni sé á milli hreyfigetu og málþroska. Þannig að slök hreyfigeta getur komið niður á málþroska og lestranámi.
Við förum því út tvisvar á dag ef veður leyfir. Börnin fá góða hreyfingu úti í garði við að moka og fóta sig í sandi og snjó og puða upp og niður brekkuna eins á hjólum og í boltaleikjum. Einnig höfum við afnot af salnum eftir hádegi þar sem þau eru í ýmiskonar hreyfileikjum.


Fínhreyfingar þjálfast í kubbaleikjum, púsluspilum, hreyfingum með söng, að perla og í föndurherbergi við að leira og lita. Börnin eru enn á krotstigi og eru mörg hver að kanna eiginleika hlutanna sem þau fá í hendur með því að sleikja, naga, slá hlutum í,eða láta þá detta.

Málörvun: Við lesum bækur sem hæfa þroska barnanna. Með yngstu börnunum skoðum við myndabækur og tölum um það sem við sjáum. Við notum líka ýmiss spil eins og einföld lottó með myndum sem þau kannast við.

Það er mikið sungið hér bæði fyrir hádegismat og fyrir miðdegishressingu. Eru það mikið lög með hreyfingum sem eru góð fyrir málþroska og samhæfingu orðs og handar. Söngtextar eru í boði á deildinni.

Önnur áhersluatriði hjá okkur er vinátta, gleði, líkamsþekking, grunnlitirnir og tölur upp að 10. Einnig tengjum við þema árstíð hverju sinni td, laufblaðatínsla og laufblaðamyndir hefur verið viðfangsefni okkar undanfarið.


Myndlist og tónlist fléttast inní í frjálsan leik og daglegt starf.

Foreldrar vinsamlega athugið að stundum getur þurft að gera breytingar á

dagskipulagi vegna veðurs, manneklu eða annarra verkefna.

Friðhelgi matar og hvíldar

Á milli 11:30 og 13:00 eru börnin að borða og hvíla sig. Mjög mikilvægt er að virða þennan tíma og koma ekki með eða sækja börnin nema í samráði við starfsfólk.

Frjáls leikur/Val:

Við notum leiksvæðaval. Þannig velja börnin sér fyrst og fremst ákveðið leiksvæði eða viðfangsefni frekar en leikfélaga, sem stuðlar að fjölbreyttari samskiptum innan barnahópsins.

Hreyfistundir:

Hreyfistundir eru á miðvikudögum og föstudögum kl.9:00-11:00. Börnunum er skipt uppí hópa 4 börn í hverjum hóp. Gott er að börnin séu mætt kl. 9:00 þessa daga.

Samverustundir:

Stuttar stundir fyrir hádegisverð þar sem mest er lagt upp úr notalegheitum með ívafi af fræðslu, leikjum, söng og framsögn.

Sögustund:

Það er gott að gefa sér tíma yfir daginn og hlusta á skemmtilegar sögur og ævintýri.

Markviss málörvun:

Einu sinni í viku er unnið með verkefni í markvissri málörvun úr samnefndri bók.Áhersla er lögð á hlustunarleiki, rímleiki, samstöfur, setningar og orð, forhljóð og hljóðgreiningu.Þessi vinna er forvarnarstarf gegn lestrarörðugleikum.

Listsköpun:

Myndsköpun/tónlist/leikræn tjáning ásamt fleiri listgreinum fléttast inní daglegt starf. Tekin verður vika í senn þar sem áhersla er lögð á eina ákveðna listgrein.

Vettvangsferðir: Stefnt er að því að fara reglulega í vettvangsferðir og gefa börnunum tækifæri til að kynnast nærumhverfi sínu. Markmiðið er að styrkja úthald barnanna, efla samhæfingu, æfa umferðarreglur og kynnast umhverfinu og náttúrunni í sinni fjölbreyttustu mynd.

Samkvæmt Aðalnámskrá Leikskóla ber leikskóla að leggja rækt við almennan þroska barns. Það felur í sér líkams- og hreyfiþroska, vitsmuna- og tilfinningaþroska, félags- og siðgæðisþroska, málþroska, fagurþroska og sköpunarhæfni.

Leikur : Nám barnanna fer fram í gegn um leikinn. Þau fá æfingu í samskiptum, taka ákvarðanir, leysa vandamál og æfa sig á hlutverkum úr sínum reynsluheimi. Starfsfólk er til staðar á leiksvæðunum sem þátttakendur og leiðbeinendur.

Kubbasvæði: Kubbasvæðið er mikilvægt fyrir ýmsa þroskaþætti barns. Það eykur skilning þess á eðli, stærð, lögun. fjölda og ólíkum eiginleikum hluta og er því grunnur fyrir frekara stærðfræðinám. Í kubbaleik styrkist fínhreyfigeta og samhæfing, auk þess sem hugtakaskilingur eykst og sköpunargleði og ímyndunarafl fá útrás.

Heimiliskrókur: Þykjustu- og hlutverkaleikir eru góðir fyrir ímyndunaraflið og gera barni kleift að endurspegla reynsluheim sinn ásamt jafningjum sínum. Það felur í sér samvinnuhæfni og almenna þjálfun í mannlegum samskiptum. Auk þess sem tillfinninga-, félags-, siðgæðis- og málþroski eflist.

Listasmiðja: Fjölbreytt listsköpun eflir fagurþroska, samspil augna og handa styrkist og barn kynnist fjölbreyttum efnivið. Sköpunarkraftur, ímyndunarafl og tjáningarhæfni eykst sem og sjálfstæð vinnubrögð.

Litla herbergi: Þar fer fram leikur með ýmis farartæki t.d. bíla og lestar í litlum hóp. Einnig notum við það herbergi fyrir könnunarleikinna.

alur: Hreyfing er undirstaða annarra þroskaþátta en þannig styrkir barn skynfæri sín og hreyfifærni, sérstaklega grófhreyfingar, stöðugleika, fimi og samhæfingu. Hreyfing styrkir vöðva og bein og eykur andlega og líkamlega vellíðan. Barn verður meðvitaðra um sjálft sig og aðra, umhvefi sitt, fjarlægðir og rými. Þegar barn vinnur í hóp, eflist tillitssemi, umburðarlyndi, félagshæfni, samvinna og sjálfsstjórn. Börnin fara í salinn á hverjum degi eftir hvílu.

Leikstofa: Í leikstofu má m.a. finna efnivið sem reynir á fínhreyfingar barns, s.s. leir og perlur. Þar eru einnig ýmis konar bækur, púsl og spil sem krefjast samvinnu og sjálfstæðis barns, sem eykur samskiptahæfni og eflir félags- og siðgæðisvitund.

Sveitabær/ dýr: Bærinn gefur gott tækifæri til hlutverkaleikja auk margs annars, s.s. að fræðast um ólíkar dýrategundir og dýrahljóð, foreldra og afkvæmi þeirra. Einnig kynnist barn hringrás lífsins og því hvernig tilvera manns, dýra og náttúru er samofin.

Tiltekt: Tiltekt eftir leik eflir almenna umhverfisvitund barns og eykur skilning á að framkoma þess í því samhengi skiptir máli. Þetta á við um nánasta umhvefi barna, s.s. eigin fatnað og eigur leikskólans sem og náttúruna og almenningseignir.Útivera: Hreint og gott loft, hreyfing og sólarljós er nauðsynlegt til að barn þroskist og dafni eðlilega. Útivera eykur þol, úthald, almenna hreysti og heilbrigði barns og eflir samtímis grenndar-, umhverfis og menningarvitund þess.

Könnunarleikur: Er leikur með verðlaust dót sem vinsælt er að skoða og prófa sig áfram með. Börnin fá útrás fyrir forvitni sína, geta einbeitt sér að efniviðnum og leikið sér með hlutina að eigin hvötum án stýringar. Efniviðurinn er opinn og býður upp á marga möguleika.Hér fyrir neðan eru fréttir af starfinu á deildinni

© 2016 - 2019 Karellen