Beint á efnisyfirlit síðunnar

null

Virðing-Vinátta-Væntumþykja

eru einkunnarorð Kirkjubóls.  Þessi hugtök eru leiðarljós okkar í uppeldisstarfinu og skulu í heiðri höfð.

Virðing : 

Virðing er undirstaða góðra samskipta.  Virðing endurspeglast í framkomu okkur við aðra og einnig í því hvernig við göngum um okkar nánasta umhverfi.  Við viljum að börnin læri að bera virðingu fyrir sjálfu sér, öðlist jákvæða sjálfsmynd, sýni öðru fólki virðingu og gangi vel um umhverfið. 

Virðing er ekki meðfæddur eiginleiki heldur lærist í gegnum samskipti og þar erum við fullorðna fólkið fyrirmynd. 

Vinátta: 

Manneskjan er félagsvera, við lærum af öðrum og með öðrum.   Að eiga vin skiptir gríðarlega miklu máli og enginn á að vera einmana í leikskólanum.  Góðir vinir bera virðingu hver fyrir öðrum, á milli þeirra ríkir traust, hjálpsemi, umburðarlyndi og samkennd. 

Væntumþykja: 

Við leggjum áherslu á að sýna hvert öðru vinsemd og væntumþykju.  Við erum í nánum samskiptum alla daga og allir í  barnahópnum þurfa að upplifa að þeir skipti máli.   Þannig hefur jákvæðni, bros, hlýtt viðmót og góð tengsl mikil áhrif á líðan okkar.  Mikilvægt er að börnunum líði  vel og að þau finni fyrir væntumþykju í sinn garð. 

Munum að leikurinn er náms- og þroskaleið barnsins og við viljum að lífsgleði sé ríkjandi í leikskólanum.

 

 

Markmið og leiðir fyrir einkunnarorðin.

 

Markmið: 

v  Að auka samkennd

v  Að efla góð samskipti og samvinnu.

v  Að sýna öðrum hjálpsemi og tillitsemi.

v  Að auka ánægju barna, foreldra og starfsfólks

v  Að efla virðingu fyrir náttúrunni, umhverfinu og leikefni leikskólans.

v  Að efla umburðarlyndi og víðsýni á meðal barnanna og starfsfólksins.

v  Að finna leiðir til að samræma ólík sjónarmið.

v  Að finna að maður skiptir máli og að aðrir beri hag manns fyrir brjósti.

v  Að aðskilja hegðun barns frá persónu.

Leiðir:

v  Vera góð fyrirmynd þar sem viðhorf kennarans skiptir máli.   Virðingin sem við sýnum öðrum birtist meðal annars í orðafari okkar, raddblæ og framkomu.  Við sýnum verkum, hugmyndum og áhugasviðum barnanna virðingu.  Brosa, sýna gleði og hlýju. 

v  Virk hlustun, hvað eru börnin að segja okkur, hvernig líður þeim, hvað segir hegðun þeirra okkur.  Hrósa því sem vel  er gert og hvetja.

v  Börnin taka þátt í að setja samskiptareglur, af hverju má ekki slá aðra og svo framvegis.   

v  Efla sjálfræði barnanna.

v  Umræður í hópastarfi, samvinnuleikir og hróshringir

v  Bækur, söngvar, sögur (t.d.klípusögur), spil. 

v  Lífsleikni (nýta okkur lífsleiknikassann sem við eigum).

v  Vinna með umhverfismennt, endurvinna, nýta og halda grænfánanum.  Huga að nánasta umhverfi okkar, tína rusl og rækta.

v  Gera vinakönnun, sjá hvort allir telji sig eiga vin í leikskólanum og allir séu einhvern tímann nefndir sem vinur.

v  Skiptast á með leikefnið sem er í boði.

v  Tengist inn í öll námssviðin

 

Hafðu samband